27.1.2011

Fimmtudagur 27. 01. 11.

Tilraunir þeirra sem vilja skýra álit hæstaréttar og ógildingu stjórnlagaþingkosninganna sem pólitíska aðför að þinginu og ríkisstjórn vegna afstöðu dómara til kvótalaganna eru fráleitar. Hið merkilega við þetta er að Jóhanna Sigurðardóttir ýtti undir þennan fráleita málflutning þegar hún stóð öskrandi í ræðustól alþingis undir kvöldmat á þriðjudag.

Gagnrýnendur kvótalaganna gleyma því að þau voru sett á sínum tíma þegar Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn voru við völd. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu meira að segja í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem beitti sér fyrir setningu laganna.

Að þessari staðreynd sé ekki haldið á loft er aðeins til marks um lélegt samhengi í íslenskri fjölmiðlun og hve auðvelt er að blekkja fjölmiðlamenn með upphrópunum og spuna.

Enn er rætt um ábyrgð á kosningaklúðrinu. Þarf að leita langt? Það má til dæmis fara í greinasafn Morgunblaðsins. Þá kemur þetta til dæmis í ljós frá 23. nóvember 2010:

„Framkvæmd og eftirlit með kosningum til stjórnlagaþings um næstu helgi verður fyrst og fremst á ábyrgð landskjörstjórnar að sögn Ástráðar Haraldssonar, formanns hennar.

Hann segir ljóst að við þær aðstæður þar sem um er að ræða 522 framboð verði umboðsmannakerfi ekki viðkomið....

Aðspurður hvort landskjörstjórn hafi þannig í raun ekki ein eftirlit með eigin verkum segir hann: „Jú, og svo kemur náttúrlega sú umfjöllun sem getur orðið ef menn una ekki niðurstöðunni og telja hana ranga."“

Þarna fer ekkert á milli mála um ábyrgðina. „Umfjöllunin“ sem Ástráður nefnir þarna varð örugglega örlagaríkari en hann vænti.