25.1.2011

Þriðjudagur 25. 01. 11.

Málsvörn ráðherranna Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur sem bera pólitíska ábyrgð á því að í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru kosningar á landsvísu ógiltar af hæstarétti stenst ekki gagnrýni.

Ögmundur segir í öðru orðinu að ekki sé unnt að brjóta lög nema valda öðrum skaða og hinu að þrátt það fallist hann á ógildingu hæstaréttar. Hann bendi bara á þetta til að stofna til umræðna! Skafti Harðarson sem kærði framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna til hæstaréttar velti fyrir sér í Kastljósi hvort Ögmundi þætti óþarfi að sekta menn fyrir að aka á rauðu ljósi af því að það skaðaði engan. Hvað með hraðamyndavélar? Eða að láta fólk blása í blöðru? Niðurstaða hæstaréttar hefur varnaðaráhrif.  Hún minnkar líkur á því að sýnt verði sífellt meira kæruleysi við framkvæmd kosninga.

Jóhanna öskraði í þingsalnum á íhaldið eins og það hefði stjórnað niðurstöðu sex hæstaréttardómara í þágu kvótaeigenda af ótta við þjóðareign á auðlindum. Í Kastljósi hafði hún breytt um tón. Nú vill hún að „fólkið fái það sem það er að kalla eftir“  hún sagði að stjórnlagaþingið væri „helsta krafa fólksins“   og loks sagði hún „fólkið verður að fá sitt stjórnlagaþing“.

Þetta er dæmalaust lýðskrum. Lítil þátttaka í stjórnlagaþingskosningunum sýndi að „fólkið“ hafði lítinn áhuga á þinginu. Stjórnlagaþingið hefur verið gæluverkefni Jóhönnu árum saman. Henni mistókst hrapallega að stofna til þess sem forsætisráðherra. Helsta krafa þeirra sem þrá stjórnlagaþing  hlýtur að vera afsögn Jóhönnu. Henni mistókst þetta ætlunarverk sitt eins og annað.