16.1.2011

Sunnudagur 16. 01. 11.

Paul Krugmann, prófessor, Nóbelsverðlaunahafi og dálkahöfundur hjá The New York Times lýsir í langri grein í tímariti blaðsins í dag tilurð evrunnar og vandræðum á evru-svæðinu. Greinin er jafnframt lýsing hans á ólíkum viðhorfum hagfræðinga til myntsamstarfs og gengismála. Sjálfur segist hann fylgjandi sveigjanleika og hefur greinilega ekki mikla trú á því að tekist hafi að tryggja örugga framtíð evrunnar.

Krugmann nefnir Ísland tvisvar til sögunnar í grein sinni. Hann segist annars vegar taka sjálfstæða mynt Íslands sem dæmi þegar hann skýrir hvers vegna engum detti í hug að Brooklyn-hverfi í New York eignist eigin mynt. Þá ber hann saman ísland og Írland eftir hrun og telur Íslendinga nokkuð betur setta en Íra, þar sem við höfum tekið höggið með gengisfellingu en Írar þurfi að leita annarra erfiðari leiða til að draga úr kaupmætti.