15.1.2011

Laugardagur 15. 01. 11.

Eins og ég hef áður sagt ræddi ég við Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, í þætti mínu á ÍNN sl. miðvikudag. Hér má sjá þáttinn.

Ég sé á mbl.is að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, dregur í efa að fulltrúi ESB hafi lýst yfir því á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar föstudaginn 14. janúar að ESB ætlaði að setja makríl-löndunarbann á íslensk skip. Engin ákvörðun hafi verið tekin.

Hinn 21. desember 2010 lýsti Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, yfir því að hún hefði óskað eftir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni 14. janúar 2011 til að kynna ákvörðun sína um löndunarbannið í samræmi við EES-samninginn. Blaðafulltrúi Damanaki sendi fréttatilkynningu um hádegisbil 14. janúar og sagði frá því að EES-fundurinn hefði verið haldið, tilkynningunni um löndunarbann hefði verið lýst og framkvæmd bannsins yrði hrundið í framkvæmd.

Tómas Heiðar Hauksson, þjóðréttarfræðingur, sagði málið ekki breyta neinu fyrir Íslendinga og Bjarni Harðarson, blaðafulltrúi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók í sama streng. Við svo búið kemur síðan Össur og segir ESB ekki hafa tekið neina ákvörðun!

Ég skrifaði leiðara um málið á Evrópuvaktina sem lesa má hér án þess að minnast á þessa furðulegu afstöðu Össurar. Hún minnir á frásögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra gagnvart ESB, sem sagði eftir fund með Damanaki þegar hún hafði kynnt áform sín um refsiaðgerðir gagnvart Íslendingum að hún hefði verið hin viðræðubesta á fundi þeirra. Hún hefði skilning á málstað Íslendinga.