13.1.2011

Fimmtudagur 13. 01. 11.

Lene Espersen sem ég kynntist í tíð minni sem dómsmálaráðherra sagði í dag af sér sem formaður danska Íhaldsflokksins eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni í fjölmiðlum vegna framgöngu sinnar sem utanríkisráðherra auk þess sem fylgi flokksins hefur minnkað jafnt og þétt síðan 2008 þegar hún varð flokksformaður.

Þegar ég hitti Lene á fundum dómsmálaráðherra Norðurlanda og endranær var hún vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur. Þess vegna hefur verið sérkennilegt að fylgjast með því hvernig fylgið hefur fallið af henni og flokki hennar, eftir að hún hlaut hinn mesta frama innan flokks síns. Að sumu leyti líktust fréttir um hana sem utanríkisráðherra og fjarveru frá fundum erlendis  einelti fjölmiðla. Að minnsta kosti var hún mæld með öðrum kvarða en til dæmis er notaður hér um Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina um þá kröfu ESB til allra umsóknarríkja að þau lagi sig að reglum ESB áður en aðildarviðræðum lýkur.