11.1.2011

Þriðjudagur 11. 01. 11.

Ríkisstjórnin er ekki síður á barmi upplausnar en þingflokkur vinstri-grænna, þegar umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra deila opinberlega um ákvörðun Landsvirkjunar um að gæta réttar síns til rannsókna í Gjástykki verði niðurstaðan sú að hugsanleg nýting verði leyfð að loknu umhverfismati.

Hvar er forsætisráðherra? Er Jóhanna með öllu ófær um að halda liði sínu saman? Eru kettirnir komnir að ríkisstjórnaborðinu? Var ekki ríkisstjórnarfundur í morgun, þriðjudag? Vissi hvorugur ráðherrann um að Orkustofnun heimilaði Landsvirkjun að viðhalda rétti sínum? Er ekki miðlað neinum upplýsingum á ráðherrafundum? Hvar eru leikreglurnar um gegnsæi og miðlun upplýsinga sem ríkisstjórninni hafa verið settar af embættismönnum Jóhönnu?  Eru þær hundsaðar af ráðherranum eins og Ólafur Ragnar ætlar að hundsa óskir Jóhönnu um að hann setji sér siðareglur?

Kínverjar eru að öðlast fótfestu í stóriðju á Íslandi með kaupum á Elkem, norska fyrirtækinu, sem á járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Norðmenn hafa áhyggjur af þessari þróun en hér er henni fagnað ef marka má fyrstu fréttir. Þessi frétt ætti að minna enn og aftur á þá staðreynd að allir stærstu erlendu fjárfestar hér á landi eiga heima utan Evrópusambandsins. Aðild Íslands að ESB mun veikja samkeppnisstöðu álfyrirtækja hér vegna hærri gjalda.

Þegar kínversk stjórnvöld áttuðu sig á því að hér hefðu þeir náð undirtökum sem vildu aðild Íslands að ESB hættu þau tvíhliða viðræðum við íslenska embættismenn um fríverslunarsamning. Þau hafa hins vegar búið sig undir að styrkja aðstöðu sína hér á landi með nýrri byggingu undir sendiráð.