31.12.2010

Föstudagur 31. 12. 10.

Í dag að morgni gamlaársdags klukkan 07.30 var ég gestur hjá Frey Eyjólfssyni á rás 2 á RÚV og ræddum við stjórnmálaástandið nú um áramótin eins og heyra má hér.

Freyr nefndi að hann hefði nýlega haft Guðmund Ólafsson sem gest sinn og hefði hann farið mikinn um njósnir sjálfstæðismanna fyrr á árum eins og þeim væri lýst af Guðna Th. Jóhannessyni í ævisögu Gunnars Thoroddsens. Ég hef ekki lesið nógu langt í sögunni til að sjá hvað Gunnar hefur um þetta að segja. Ég sagði hins vegar við Frey að af og frá væri að tala um njósnir í þessu sambandi. Hér hefði verið um markvissa kosningavinnu að ræða sem alls ekki hefði farið leynt heldur þvert á móti sætt öfund annarra flokka.

Ég sagðist muna vel eftir þessu kerfi. Kjörskráin hefði verið flokksmerkt eins og það var kallað, það er sett hefði verið S framan við örugga sjálfstæðismenn S? fyrir framan þá sem taldir voru volgir, sumir í skránni hefðu verið ómerktir en aðrir merktir öðrum flokkum. Þessar merkingar hefðu ekki byggst á neinum njósnum heldur mati þeirra sem sátu í fulltrúaráði flokksins.  Fulltrúar í kjördeilum skráðu hverjir komu á kjörstað. Þær upplýsingar bárust á kosningaskrifstofu og þar var merkt við í skránum og síðan lagt mat á hvernig kjörsókn stuðningsmanna flokksins væri háttað. Hringt hefði verið í þá sem ekki létu sjá sig. Sérstaklega var metið hvort aðeins ætti að hringja í S merkta, S? merkta og ómerkta.

Að kenna slíka kosningavinnu við njósnir sagði ég fráleitt. Ekki síst nú á tímum fésbókarinnar og hefði ég einnig getað nefnt Google-leitarkerfið í sömu andrá. Hingað kæmu nú erlendir menn sem teldu að unnt væri að ná til allrar þjóðarinnar í kosningabaráttu með símhringingum á örskömmum tíma. Þeir sem legðu út af frásögn Gunnars á þennan neikvæða hátt væru örugglega að rangtúlka afstöðu hans því að hlyti að hafa verið stoltur af fulltrúaráði sjálfstæðismanna og framlagi þess til kosningabaráttu fyrr og síðar meðan hún var háð undir þessum formerkjum.