21.12.2010

Þriðjudagur 21. 12. 10.

Í morgun sá ég tunglmyrkvan þegar ég kom úr sundinu. Magnað fyrirbæri.

Í húskarlahorni Fréttablaðsins er fundið að því í dag, að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður, skrifi um viðtalsbók Þórhalls Jakobssonar við Árna M. Mathiesen í tímaritið Þjóðmál. Er látið að því liggja að ekki sé að marka dóm Einars K. af því að hann hafi setið í ríkisstjórn með Árna. Þetta er fráleit skoðun. Það gefur umsögn Einars K. einmitt sérstakt gildi að hann þekkir ekki síður til þeirra mála sem um er fjallað en Árni.

Ég skrifa um bók Árna Bergmanns um Gunnar Eyjólfsson, Alvöru leiksins, í Þjóðmál. Ég þekki Gunnar vel og tel það ekki gera mig vanhæfan til að segja álit mitt á bók þeirra Árna og Gunnars - þvert á móti get ég sett hana í annað samhengi en þeir sem ekki þekkja Gunnar.

Skrifin í Fréttablaðinu bera þess merki að höfundurinn sætti sig ekki við að bók Þórhalls og Árna M. fái jákvæða umsögn. Hann ræðst þess vegna á þann sem umsögnina skrifar.

Í kvöld fórum við í þéttsetna Garðakirkju og hlýddum á Camerarctica-hópinn flytja tónlist við kertaljós.