16.12.2010

Fimmtudagur 16. 12. 10.

Samtalsþáttur minn við Þór Whitehead á ÍNN frá 15. desember er kominn á netið og má sjá hann hér.

Ólafur Arnarson, pistlahöfundur á Pressunni, undrast að ég hafi ekki sagt neitt um niðurstöðu dómara í New York sem vísaði Glitnismálinu frá sér með þeim orðum að hann hefði nóg á sinni könnu auk þess sem ekki væri sanngjarnt að skattgreiðendur í New York bæru kostnað vegna málsins. Ég skil dómarann vel að vilja ekki taka þetta mál að sér fyrst lög knýja hann ekki til þess. Þetta var áhætta sem sækjendur málsins töldu vert að taka. Miðað við gögnin sem dómarinn krafðist og lögð voru fyrir hann virðist margt hafa áunnist í málinu, þrátt fyrir afstöðu dómarans.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs og penna hans koma mér ekki heldur á óvart. Ólafur og Bubbi Morthens skrifa báðir fagnaðarpistla á Pressuna vegna afstöðu dómarans í New York. Jón Ásgeir tekur til við að kyrja sama sönginn og á tímum Baugsmálsins um að sér sé nóg boðið, hann hafi borgað háar fjárhæðir sér til varnar og muni fara í skaðabótamál. Allt er þetta gamalkunnugt.

Bjarni Benediktsson sannaði í Kastljósi kvöldsins að ekki þýðir lengur fyrir Steingrím J. Sigfússon að vaða yfir hann með hroka og köpuryrðum. Bjarni hefur betri sýn á stöðu Icesave og stöðu efnahags- og atvinnumála en Steingrímur J., en fjármálaráðherra fylgir efnahags- og skattastefnu sem dregur þrótt úr fjárfestum og fyrirtækjum.