28.11.2010

Sunnudagur 28. 11. 10.

Ég taldi líklegt að fleiri en 37% tækju þátt í stjórnlagaþingskosningunum. Þátttakan er álíka mikil og í flugvallarkosningunni hjá R-listanum um árið. Síðan hefur ekkert gerst í flugvallarmálinu, enda olli kosningaþátttakan vonbrigðum og varð engum hvatning til dáða.

Jónas Kristjánsson, frambjóðandi til stjórnlagaþings, ræðst á kjósendur og fer um þá neyðarlegum orðum fyrir að hópast ekki á kjörstað. Ætli hann telji sig verða utan þingsins?

Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, getur ekki leynt vonbrigðum sínum með kjósendur en minnir á að þingið verði haldið, þótt umbjóðendur þingmanna séu svona fáir. Hún gefur einnig til kynna að stjórnlagaþingið geti sett alþingi afarkosti, þótt það sé aðeins ráðgefandi. Hún telur einnig að „lýðræðisuppeldi“ skorti hjá þjóðinni auk þess sem kynning fyrir kjördag hafi verið misheppnuð.


Eðlilegt er að formaður stjórnlaganefndar leiti einhverra skýringa. Einfaldasta skýringin er að þessar kosningar vöktu einfaldlega ekki  áhuga almennings, af því að menn sjá ekki tilgang þess að eyða fé og tíma til þess að setjast á rökstóla um stjórnarskrána, hún sé ekki mál málanna um þessar mundir.

Réttmætt er að nefna Jóhönnu Sigurðardóttur sérstaklega til sögunnar þegar vikið er að þeim sem hafði frumkvæði að því að stofna til þessara misheppnuðu kosninga til stjórnlagaþings. Henni hefur verið kappsmál um langt árabil að efnt yrði til slíks þings. Þingmenn tókust harkalega á um þessa hugmynd hennar strax eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Þá var hugmynd hennar sú að stjórnlagaþingið tæki stjórnarskrárvaldið af alþingi. Til allra heilla var unnt að stöðva þau áform.