26.11.2010

Föstudagur 26. 11. 10.

Fyrsta regla allra seðlabankastjóra í heiminum er að gera allt sem verða má til að njóta trausts og trúverðugleika. Frá því áður en Már Guðmundsson varð seðlabankastjóri hefur hann gengið á svig þessa reglu, því að ekki hefur verið upplýst með viðunandi hætti hvernig staðið var að samningum um launakjör hans. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra settu á svið blekkingarleik um málið eins og hér er lýst.

Nú fer Már undan í flæmingi vegna framgöngu sinnar varðandi söluna á Sjóvá. Reynir Traustason, ritstjóri DV, er helsti bandamaður hans. Eykur það ekki á trúverðugleikann.

Stóra spurningin er, hvernig Már ætlar að endurvekja trúverðugleika sinn og  þar með seðlabankans. Eins og skömmtunarstjóra er siður telur hann sig hafa tögl og hagldir í krafti opinberra haftareglna. Öllum er ljóst, að hann hefur minnstan áhuga allra á að afnema höftin, enda yrði han valdalaus án þeirra, eftir að vaxtavaldið hefur verið tekið úr höndum hans.