19.11.2010

Föstudagur 19. 11. 10.

Nú er viðtalsþáttur minn af ÍNN frá því á miðvikudaginn þegar ég ræddi við Björgvin G. Sigurðsson um nýja bók hans Storm komin á vefinn og má sjá hann hér.

Á sínum tíma þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur var okkur einu sinni gerð grein fyrir miklu rafeinda- og tölvuverkefni undir heitinu smart-kort sem átti að leiða til þess að notendur þjónustu hjá borginni ættu að geta keypt kort sem veitti þeim aðgang að þjónustu á vegum borgarinnar meðal annars í strætó og sundi. Ég man ekki hvað var talað um mörg hundruð milljóna króna kostnað við þetta verkefni. Ég man hins vegar að lýsingar á kostum þess voru hástemmdar. Ég var hugsi yfir því þá hvort óhjákvæmilegt væri að leggja í þennan kostnað til að ná því markmiði sem að var stefnt, hvort ekki mætti semja við einhverja erlendis, sem leyst hefðu málið og kaupa forrit og tækjakost af þeim.

Enn var mér hugsað til þessa á dögunum í New York þegar sá hve snurðulaust allt aðgengi að jarðlestum borgarinnar var með þeim smart-kortum sem menn gátu keypt og veittu þeim rétt til mismargra ferða í lestunum. Þeim var rennt hratt í gegnum rauf fyrir framan hlið sem síðan opnaðist fyrir korthafa. Í öll þau skipti sem ég notaði mitt 7-daga-kort lenti ég aðeins einu sinni í vandræðum, líklega vegna þess að ég var ekki nógu fljótur að ýta á slá hliðsins þegar orðið go birtist á því, næst þegar ég renndi í gegn komu orðin just used og varð ég að biðja vörð um að opna hliðið fyrir mig.

Í Laugaradalsundlauginni eru tvö hlið sem unnt er að opna með smart-kortum, kortunum er ekki rennt í gegn heldur lögð á hliðstólpa. Annað hliðið hefur verið lokað vikum saman og á því er hálf hallærislegt blað sem á er krotað á íslensku og ensku rafeindabúnaðurinn sé bilaður. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þessi hlið séu afrakstur smart-verkefnisins sem kynnt var í borgarráði fyrir sex til sjö árum. Þá er hitt líka umhugsunarefni hvers vegna ekki er gert við bilaða hliðið. Það gæti að minnsta kosti verið í ábyrgð svo skammt er síðan það kom til sögunnar.