3.11.2010

Miðvikudagur 03. 11. 10.

Fyrir tveimur vikum var Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, gestur minn í ÍNN og má nú sjá þáttinn hér.

Í kvöld verður Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, gestur minn í þættinum. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að vinna úr hugmyndum sem fram koma á þjóðfundi nk. laugardag. Þar koma um 1000 manns saman og ræða um efni nýrrar stjórnarskrár samkvæmt sérhönnuðu umræðukerfi sem á að auðvelda að komast að sjónamiðum hópsins.

Markmið stjórnlaganefndar er að meginsjónarmið á þjóðfundi verði unnt að kynna strax sunnudaginn 7. nóvember. Nefndinni ber hins vegar að leggja sérgreindari hugmyndir eða tillögur fyrir stjórnlagaþing, sem kemur saman í febrúar 2011.

Áhugamenn um það ferli sem nú stendur yfir til að skapa sátt um breytingar á stjórnarskránni ættu að horfa á samtal okkar Guðrúnar. Það er sýnt fyrst klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti næsta sólarhring.