2.11.2010

Þriðjudagur 02. 11. 10.

Í hádegi flutti Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, erindi í þéttsetnum ráðstefnusal þjóðminjasafnsins um fornleifagröft og rannsóknir á Skriðuklaustri. Þeim lýkur á næsta ári en hafa þegar stuðlað mjög að því að upplýsa betur en nokkru sinni áður, hvernig klausturhaldi var háttað hér á landi.

Klaustrið á Skriðu var stofnað 1493, síðast 10 klaustra, sem hér voru stofnuð á tímabilinu frá 1133 til siðaskipta. Steinunn telur, að klaustrið hafi lotið stjórn móðurklausturs innan reglu Ágústina á meginlandi Evrópu. Þótt það hafi verið stofnað fyrir forgöngu Skálholtsbiskups hafi hann ekki farið með stjórn þess heldur hafi það lotið skipan eigin reglu. Þetta hafi komið fram í rannsókn séra Heimis Steinssonar á sínum tíma og fellst Steinunn á niðurstöðu hans um þetta efni.

Þetta er í samræmi við stöðu klaustra enn þann dag í dag gagnvart biskupum. Þótt þau séu öll innan biskupsdæma hafa þau eignarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði og lúta síðan andlegri forsjá í samræmi við skipan mála innan viðkomandi klausturreglu.

Munkarnir í Skriðuklaustri voru ekki margir að mati Steinunnar, innan við 10. Þeir létu hins vegar að sér kveða gagnvart öðrum landsmönnum en sátu ekki innilokaðir við bænir og bókiðju. Steinunn sagði að þessi skoðun á samfélagslegri þátttöku munkanna stangaðist á við staðalímynd þeirra hér á landi sem mótuð hefði verið af þeim sem hefðu skrifað um klaustur á Íslandi til þessa.  Tímabært væri að breyta þeirri mynd.