18.10.2010

Mánudagur, 18. 10. 10.

Í dag var sólbjart í Fljótshlíðinni og Eyjafjallajökull blasti við hvítur að nýju.Eyjafallajökull 18. okt. 2010  Öskulagið er falið undir nýrri snjófölinni. Myndina tók ég um hádegisbil.

Á Evrópuvaktinni má lesa frétt af umræðum á alþingi í dag vegna fyrirspurnar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur til Össurar Skarphéðinssonar vegna grunnstefnu NATO og leiðtogafundar bandalagsins í Lissabon í nóvember. Þar kemur fram allt önnur stefna hjá Össuri en vinstri-grænir boða og fólst meðal annars í þeirri yfirlýsingu Ögmundar Jónassonar, að efna skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að NATO. Össur lýsir sig eindreginn stuðningsmann NATO-aðildar og sameiginlegrar varnarstefnu NATO. Hún sé ástæða þess, að Ísland sé í bandalaginu.