17.10.2010

Sunnudagur, 17. 10. 10.

Á mbl.is birtist í dag:

„Embætti ríkislögreglu­stjóra verður gert að hreinni stjórnsýslu­stofnun, gangi hugmyndir stjórnvalda eftir. Efnahagsbrota­deild verður þá sameinuð sérstökum saksóknara og sérsveitin flutt til lög­reglunnar á höfuðborgar­svæðinu. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.“

Í fréttum RÚV var rætt við Ögmund Jónasson, dómsmálaráðherra, og sagði, að málið væri í skoðun í ráðuneytinu. Ef fréttamaður RÚV eða blaðamaður mbl.is hefðu skoðað málið og sett í samhengi, blasti við, að ekkert nýtt væri í þessari frétt. Þetta hefur allt komið fram áður.

Að skipta landinu í sex lögregluumdæmi kom til athugunar fyrir fimm árum. Ákveðið var að slá því á frest, þar til lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu hefðu verið sameinuð. Vinna við verkefnið hófst hins vegar strax á árinu 2007 og tillögur lágu fyrir árið 2008. Hlutverk embættis ríkislögreglustjóra hefur frá upphafi verið að að sinna stjórnsýsluverkefnum, sem flutt voru frá dómsmálaráðuneytinu til þess. Vegna smæðar lögregluembætta færðust lögregluverkefni á hendur ríkislögreglustjóra. Ef einstök lögregluembætti styrkjast með stækkun, geta þau tekið að sér ný verkefni.

Við þessa uppstokkun er óhjákvæmilegt að hafa að leiðarljósi, að sérsveit lögreglunnar verði ekki eyðilögð sem sérstæð eining, sem sé ávallt til taks til að sinna sérstökum verkefnum. Nú þegar eru sérsveitarmenn í Reykjavík, á Suðurnesjum og Akureyri. Menn með þjálfun sérsveitarmanna starfa einnig í einstökum lögregluliðum. Þá verði áfram lögð áhersla á greiningarvinnu með forvirkar rannsóknarheimildir að markmiði. Loks verði lögð rækt við öflugt alþjóðasamstarf lögreglu.