13.10.2010

Miðvikudagur, 13. 10. 10.

Fyrsti námumaðurinn af í San Jose námunni við Capio í Chile náðist upp á fjórða tímanum sl. nótt. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með þessu björgunarafreki í beinum sjónvarpssendingum.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN frá 6. október, þegar ég ræddi við Eið Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra. Samtal okkar snerist um stjórnmál og fjölmiðla.

Pál Dunay flutti fyrirlestur í ráðstefnusal Þjóðminjasafns í hádeginu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um stöðu mála í Kyrgyzu, það er fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna, sjálfstæðu ríki milli Kína, Kasakstan, Usbekistan og Tajkistan. Stjórnmálaástandið einkennist af upplausn eftir stjórnarbyltingu fyrr á árinu og kosningar sl. sunnudag. 

Dunay taldi ekki miklar líkur á því að staða mála breyttist skjótt til hins betra í Kyrgyzu. Mátti helst skilja hann á þann veg, að enginn sæi neina leið út úr vanda þjóðarinnar.

Þegar hugað er að því að Kyrgyza á aðild að Öryggisstofnun Evrópu (ÖSE), sem hefur meðal annars það verkefni að vinna að framgangi mannréttinda í aðildarlöndunum, verður ekki unnt að álykta annað, eftir að hafa hlustað á Dunay, en ÖSE sé gjörsamlega máttvana sem stofnun.

Síðdegis þáði ég boð um að hitta Evu Joly í móttöku á hennar vegum í Norræna húsinu og kveðja hana,  þar sem hún lætur nú af störfum sem ráðgjafi sérstaks saksóknara. Eva Joly ætlar að helga sig baráttunni sem forsetaframbjóðandi umhverfissina í kosningunum í Frakklandi árið 2012. Ólíklegt er, að hún nái kjöri í embættið, þar sem fylgi græningja hefur verið um 5% í frönskum forsetakosningum. Eva joly á vafalaust eftir að auka fylgið, því að hún er þjóðkunn í Frakklandi og nær að láta rödd sína heyrast í stærstu fjölmiðlum.

Jón Þórisson, arkitekt, sem að sögn Joly hefur verið augu hennar og eyru sagði í ræðu í kveðjuhófinu, að ákveðið hefði verið að koma á fót fjölþjóðlegri Stofnun Evu Joly til að vinna að rannsóknum á sviði þjóðfélagsmála.