8.10.2010

Föstudagur, 08. 10. 10.

Morgunblaðið

birti miðvikudaginn 6. október viðtal við Hörð Torfason, tónlistarmann, í tilefni af mótmælum á Austurvelli mánudaginn 4. október. Hörður efndi til mótmælafunda á Austurvelli veturinn 2008/09. Hann sagði meðal annars í stuttu viðtalinu:

„Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“

Búsáhaldabyltingunni var stjórnað á bak við tjöldin. Undarlegt er, að nú á tímum gegnsæis um allt og alla, skuli enginn spyrja Hörð frekar út í þetta mál. Hverjir voru það, sem stóðu að baki búsáhaldabyltingunni? Hvers vegna erum við ekki upplýst um það?

Einkennilegt er, að hlusta á Spegilinn í RÚV, þar sem rætt er um millidómstig, eins og umræður um það séu nýmæli. Ég ýtti skipulegri vinnu af stað til að undirbúa slíkt dómstig og það liggja fyrir tillögur um, hvernig unnt er að standa að þessu máli.

Starfsmenn RÚV virka stundum við fréttaflutning eins og þeir leggi ekkert á sig til að afla sjálfstæðra upplýsinga og setja mál í samhengi. Síðdegis í dag birtist á vefsíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins svarbréf Jóns Bjarnasonar og Össurar Skarphéðinssonar við bréfi þriggja framkvæmdastjóra ESB vegna makríldeilunnar. Samt var sagt frá málinu þannig í fréttum klukkan 18.00 eins og bréfinu frá Brussel væri ósvarað. Hér má lesa frétt um þessi bréfaskipti.