25.9.2010

Laugardagur, 25. 09. 10.

Í morgun setti ég pistil hér á síðuna, leiðara, sem ég skrifaði á Evrópuvaktina. Eyjan birti frétt upp úr pistli mínum, eins og hér má sjá. Hún var ekki fyrr komin á Eyjuna en Egill Helgason, hinn óhlutdrægi þáttastjórnandi RÚV fann að því. Hann spurði fullur vandlætingar, hvað ritstjóra Eyjunnar hefði þótt fréttnæmt við það, sem ég skrifaði. Síðan tóku lesendur síðunnar að blogga með og á móti.

Ég ætla ekki að blanda mér í það, sem menn segja um þá skoðun mína, að í núverandi stöðu sé skynsamlegast að rjúfa þing og efna til kosninga. Eðlilega eru ekki allir sammála um það. Að ég telji, að þess vegna beri að fresta kosningum til stjórnlagaþings 27. nóvember, jafngildir því ekki, að ég sé andvígur stjórnlagaþingi, eftir að kosið hefur veri til þess. Ég tel hins vegar, að ekki sé rétti tíminn nú að forgangsraða í þágu þess, heldur skuli kosið til alþingis. Stjórn landsmála er í molum. Ekki verður úr bætt nema með því að rjúfa þingi og gefa kjósendum tækifæri til að velja nýjan hóp fólks til að standa að landstjórninni.

Að Egill Helgason sé andvígur því, að vakin sé athygli á nauðsyn þess að rjúfa þing og efna til kosninga, þykir mér undarlegt. Athugasemd hans við skrif mín byggist líklega frekar á óvild en málefnalegri afstöðu. Hann brást einnig illa við frétt um, að ég væri að taka saman efni í bók um Baugsmálið. Egill talar um ábyrgðarfælni og segir meðal annars:

„Og nú virðist manni að sé í uppsiglingu stórsókn í Davíðsarmi Sjálfstæðisflokksins til að sannfæra fólk um að Davíð Oddsson og félagar hafi í raun ekki verið við völd í landinu, heldur hafi Baugur í raun verið búinn að ræna völdunum. Þetta má lesa í nýju hefti tímaritsins Þjóðmála og í bók sem er væntanleg frá Birni Bjarnasyni og er kynnt í ritinu.

Baugur var vissulega til mikillar óþurftar í íslensku samfélagi með verslunareinokun sinni og ítökum í fjármálakerfinu, en samsæriskenningarnar sem er veifað til að komast undan ábyrgð eru orðnar ansi trylltar.“

Fleirum en mér finnst vafalaust merkilegt, að Egill viti, hvað stendur í bók, sem ég er að skrifa og hver er tilgangur hennar. Eitt er víst. Hún snýst ekki um að skjóta mér eða öðrum undan ábyrgð. Hvernig væri, að Egill biði þess, að bók birtist, áður enn hann tekur til við að dæma hana? Ætli hann þurfi ekki að lesa bækur til að dæma þær? Er hann ekki líka með bókmenntaþátt í sjónvarpinu?