24.9.2010

Föstudagur, 24. 09. 10

Í dag var sagt frá grein minni í Þjóðmálum um ris og fall Baugsmiðlanna. Þar kemur einnig fram, að ég er að skrifa bók um Baugsmálið. Viðbrögðin voru á þann veg, sem við var að búast. Reynir Traustason tók kipp á dv.is. Hann skrifaði um mig í svipuðum dúr og hann gerði á tíma Baugsmálsins. Hann gat ekki heldur látið ógert að  veitast á svipaðan hátt að Matthíasi Johannessen, en grein birtist eftir hann í Þjóðmálum, þar sem hann fjallar um Baugsmálið og Baugsmiðla. Henta viðbrögð Reynis vel í eftirmála bókar minnar, sem framhald af því, hvernig Reynir skrifaði til varnar Baugsmönnum á árunum 2003 til 2008. 

Blaðamennskusaga Reynis er órjúfanlegur þáttur Baugsmálsins. Nokkrir fleiri fjölmiðlamenn koma við sögu. Er ég viss um, að mörgum mun þykja forvitnilegt að kynnast hlut þeirra, þegar þar að kemur.