18.9.2010

Laugardagur, 18. 09. 10.

Fljótshlíðingar smöluðu í dag í góðu veðri. Ég var ekki við smölun allan daginn heldur gekk úr byggð upp undir Þríhyrning til fyrirstöðu og rak niður heimalandið. Lömbin eru væn.

Fljótshlíðingar óku ekki fé á afréttinn í vor vegna ösku. Í samráði við Landgræðslu ríkisins voru rúmlega 3o tonn af áburði borin á afréttinn. Önnuðust 11 bændur verkið í sjálfboðavinnu með tækjum sínum. Mikil aska hafði fallið á svæðin en nú eru þau iðjagræn og segja bændur, að gróður virðist ætla að ná sér að fullu. Síst er ástandið sagt í Þórólfsfelli.

Þótt ekkert fé hafi verið flutt á afréttinn er lögskylt að smala hann. Að þessu sinni ákváðu Fljótshlíðingar að fara ekki í nokkurra daga leitir heldur senda menn að morgni, sem sneru heim að kvöldi. Var mönnum ekki skylt að fara.

Þessar leitir eru venjulega nokkrum dögum fyrir eins dags smalið, eins og þeir segja hér, þar sem ég hef verið þátttakandi. Þá er farið norður fyrir Þríhyrning að vestan og komið niður með safnið austan við hann. Lagt er af stað í birtingu og komið niður milli 18.00 og 19.00.