14.9.2010

Þriðjudagur, 14. 09. 10.

Ég hef rennt yfir tillögur Atlanefndarinnar, sem byggðar eru á tillögum hrunnefndarinnar, um endurbætur innan stjórnsýslunnar og á störfum alþingis. Satt að segja finnst mér ekki mikið til þessa koma, því að þarna er endurtekið margt af því, sem sagt hefur verið áður og ekki komist til framkvæmda.

Ég nefni til dæmis umbætur á meðferð EES/ESB-mála í ríkisstjórn og á þngi. Um þetta voru settar reglur, þegar Ísland gerðist aðili að EES fyrir 15 árum. Þingmenn hættu einfaldlega að halda þær í heiðri. Bjarni Benediktsson vakti máls á nauðsyn þess að dusta rykið af þessum reglum í utanríkisnefnd fyrir nokkrum misserum. Þá er að finna ítarlegar tillögur um þetta efni í skýrslu Evrópunefndar frá því í mars 2007.

Umbætur á þessu sviði eiga ekkert skylt við bankahrunið. Staðið var rétt að innleiðingu allra EES-reglna um fjármálakerfið. Umbæturnar snerta hins vegar almenna starfshætti og nýtingu þeirra tækifæra, sem EES-samstarfið veitir til áhrifa á EES-löggjöfina á öllum stigum hennar. Ég er þeirrar skoðunar, að ástæðan fyrir því, að ekki hafi nú þegar verið gripið til umbóta á þessu sviði, sé einfaldlega sú, að þeir hafi ráðið of miklu við mótun samskiptanna við ESB, sem vilja Ísland inn í ESB og telja sér hagstætt að gera sem minnst úr EES-samstarfinu.

Raunsætt mat á því, sem lagt er til í úrbótatillögum Atlanefndarinnar, er, að tillögurnar rykfalli fljótt, enda bera umræðurnar á þingi með sér, að þær séu í raun tímaskekkja eins og reglurnar um landsdóm frá 1963. Umræðurnar eru úr tengslum við það, sem eru brýnustu stjórnmálaverkefni líðandi stundar. Ekki verða þær ferskari við, að menn sameinist um að setja af stað enn eina rannsóknina, nú á einkavæðingvu bankanna árið 2002.