1.9.2010

Miðvikudagur, 01. 09. 10.

Hér má sjá viðtalsþátt

minn við Ólaf Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, sem sendur var á sjónvarpsstöðinni ÍNN 25. ágúst.

Hrókeringar í ríkisstjórninni náðu ekki fram að ganga í dag, eins og að var stefnt. Í fréttum klukkan 22.00 í sjónvarpi var sagt, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hefðu hitt Ögmund Jónasson, ráðherraefni, og Jón Bjarnason, ráðherra, í kvöld til að brýna fyrir þeim, að þeir yrðu að beygja sig undir ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar og önnur áhugamál flokksformannanna, ef þeir vildu sitja í ríkisstjórninni.

Fyrr í dag var sagt frá því, að í þingflokki Samfylkingarinnar vildu menn ekki, að Ögmundur og Jón yrðu báðir ráðherrar. Er fáheyrt, að samstarfsflokkur skipti sér af ráðherravali innan hins flokksins í samsteypustjórn. Málamiðlun milli Jóhönnu og Steingríms J. byggist vafalaust á því, að reyna að þagga niður í Ögmundi og Jóni og knýja þá til að halda sér saman um ágreiningsmál.

Spurning er, hvers vegna vinstri-grænir heimtuðu ekki, að Össur yrði einnig kallaður á teppið. Hann er tekinn til við að rífast um innfluttar, frystar kjúklingabringur við Jón Bjarnason. Fetar hann þar í fótspor Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var sífellt að jagast í landbúnaðarráðherra, vegna frystra kjúklingabringa.