26.7.2010

Mánudagur, 26. 07. 10.

Í dag komu utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna saman og samþykktu viðræðurammann vegna Íslands. Augljóst er af fréttum, að þeir hafa vaxandi áhyggjur af andstöðu almennings á Íslandi við ESB-aðild. Belgíski utanríkisráðherrann sagði Össur þurfa að sannfæra efasemdarmenn um, að Íslendingar vildu í raun ganga í ESB.

Ríkisstjórnin hefur haldið þannig á ESB-málinu undir forystu Össurar, að henni er hvorki treyst hér á landi né annars staðar. Þetta er enn ein röksemd fyrir því, að umsóknin sé dregin til baka. 

Í fréttum erlendis og á Evrópuvaktinni af ráðherrafundinum í dag er vitnað í tvo ráðherra, utanríkisráðherra Belgíu og Evrópumálaráðherra Frakka, sem báðir lýsa undrun yfir, að andstaða við ESB-aðild skuli svo mikil hér á landi, þegar málið er komið á þetta stig á vettvangi ESB.