22.7.2010

Fimmtudagur, 22. 07. 10.

Eins og hér er gefið til kynna, hafa embættismenn ESB í Brussel vaxandi áhyggjur af ESB-aðildarandúð hér á landi. Hún hlýtur að koma fram á fundi utanríkismálnefndar með Össuri Skarphéðinssyni klukkan 09.00 í fyrramálið. Ráðherrann gerir nefndinni væntanlega grein fyrir því, hver verður viðræðuafstaða hans á fundinum með utanríkisráðherra Belgíu nk. þriðjudag í Brussel. Össur þarf ekki aðeins að greina frá afstöðu Íslands til aðlögunarkrafna ESB heldur einnig svara fyrir Icesave.

Í fréttinni hjá Bloomberg News, sem vísað er til hér að ofan, segir, að ESB-menn hafi óskað eftir að flýta upphafi aðlögunarviðræðnanna við Ísland vegna hinnar miklu andúðar. Þeir hafi ekki viljað bíða fram í september/október. Óttuðust þeir, að þingsályktunartillagan um að draga umsóknina til baka yrði rædd og samþykkt? Eða eru þeir hræddir um, að ESB-ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna sé að springa? Þeir vita, að vinstri-grænir ætla að ræða málið í september. Vilja þeir ná frekara tangarhaldi á íslenska stjórnkerfinu, áður en til þess kemur?

Það kom fram, sem talið var líklegt hér á síðunni í gær, að ríkisstjórnin fór fram á og fékk frest frá ESA til að skila andmælum vegna Icesave-áminningar ESA. Hins vegar hef ég ekki orðið var við, að fjölmiðlar fylgi því eftir í fréttum, hvort ríkisstjórnin krefjist frávísunar málsins frá ESA vegna ummæla forseta ESA um, að Íslendingar mundu tapa Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hvað skyldu menn segja, ef dómstjóri undirrétti talaði þannig um óleyst mál í réttinum, segði málshefjanda örugglega tapa því í hæstarétti?