13.7.2010

Þriðjudagur, 13. 07. 10.

Hersir Aron Ólafsson, framhaldsskólanemandi, ritar grein í Morgunblaðið í dag um nýskipan innritunar í framhaldsskóla, sem beitt hefur verið í sumar. 45% nýnema í hverjum framhaldsskóla skulu vera úr hverfi skólans. Hersir Aron segir um nýmælið: „Þetta er nýr liður í röð heimskulegra breytinga frá menntamálaráðuneytinu sem hófst með afnámi samræmdra prófa í 10. bekk.“

 Þá segir einnig í greininni:

„Það er alveg ljóst að nemendur eru misgóðir, en hvers vegna ættu unglingar að leggja sig fram og sýna metnað þegar góðar einkunnir gilda ekki neitt og ekki má verðlauna fyrir þær, þar sem það er algjör »mismunun«? Menn hljóta að spyrja sig hvort ekki verði tekið upp sama kerfi á íþróttamótum, bannað verði að veita verðlaun og viðurkenningar fyrir efstu sæti, enda felist í því mismunun gagnvart lakari íþróttamönnum og þeim sem ekki eru færir um að stunda íþróttir.“

Hersir Aron lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Tilraunastarfsemi menntamálaráðuneytisins hefur skemmt tækifæri og raunhæf markmið margra íslenskra nemenda. Óánægjan er greinileg, þúsundir ungmenna hafa gengið í hópa á facebook til að mótmæla breytingunum og sumir hafa jafnvel lagt til raunveruleg mótmæli.

Menntamálaráðherra [Katrín Jakobsdóttir] ætti að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar, og vinna að því að breytingarnar verði afturkallaðar til þess að koma í veg fyrir að fleiri árgangar verði fyrir barðinu á þeim.“

Ég tek undir þessi orð Hersis Arons. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því, að skólastarf batni og árangur nemenda aukist með brottnámi allra hvata og viðmiða, sem stuðla að því, að markið sé sett sem hæst.  Athygli vekur, að framhaldskólar eru ekki lengur með neinar kynningar til að laða til sín nemendur. Þá eru ekki lengur birtar upplýsingar um árangur í grunnskólum, sem byggist á einkunnum á samræmdum prófum. 

Að þurrka þessa þætti úr skólastarfi er ekki í þágu nemenda, enda mótmæla þeir, á meðan kennarar þegja.



ttur