10.7.2010

Laugardagur, 10. 07. 10.

Fórum með frændfólki að minnisvarðanum á Þingvöllum, þar sem 40 ár voru liðin frá slysinu. Það rigndi svo mikið, að við fengum inni í bústað vina til að setjast niður og eiga góða stund saman.  Það hreyfði ekki hár á höfði í logninu og kyrrðinni.

Ég sé, að í bígerð er að leita álits almennings á því, hvað eigi að gera við lóðina, þar sem Valhöll stóð. Nú er ár frá bruna hennar. Ég legg til, að lóðin fái að vera eins og hún er núna og fái að gróa. Þetta opna svæði áréttar fegurð Þingvalla án mannvirkja í þinghelginni og næsta nágrenni hennar.

Á mínum tíma í Þingvallanefnd leituðum við álits almennings á því, hvort smíða ætti nýja brú yfir Öxará við Almannagjá. Meirihluti þeirra, sem lét í sér heyra, var andvígur nýrri brú. Hin gamla stendur enn.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að gætu menn nú á dögum valið stað fyrir sambærilega aðstöðu og var í Valhöll, kysu þeir Vellina fyrir neðan og sunnan við Öxarárfoss fyrir veitinga- og móttökuhús en Skógarhóla fyrir hótel.

Landið, þar sem Valhöll stóð, sígur. Engum dettur lengur í hug að bjóða báta til leigu á Öxará eins og var gert í Valhöll á sínum tíma. Það er ekki skynsamlegt markmið að beina bílaumferð yfir Öxaraá svo nærri vatninu.