4.7.2010

Sunnudagur, 04. 07. 10.

Í gær vakti ég máls á ósannindavaðli Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, vegna endurtekna skrifa hans um, að ég hafi samið um fjárgreiðslur úr ríkissjóði til framhaldsskólans Hraðbrautar. Lygavafningur Reynis er settur fram í von um, að þar með takist að bregða fæti fyrir Hraðbrautina. Líklegt er, að í því efni gangi Reynir erinda vinstri-grænna, sem eru á móti einkaframtaki í menntamálum.

Í skrifum sínum um þetta mál á dv.is segir Reynir, að Benedikt Sveinsson, frændi minn og faðir Bjarna, formanns Sjálfstæðisflokksins, sé í varastjórn Hraðbrautar auk þess að vera frímúrari.  Þetta eru auðvitað ósanndindi eins og annað, sem birtist um okkur frændur undir ritstjórn Reynis.

Ósvífni Reynis er þó ekki bundin við Engeyinga í þessu máli. Hann ræðst einnig persónulega á Friðbjörn Orra Ketilsson, umsjónarmann vefsíðunnar vinsælu AMX, vegna þess að þar er vakin athygli á dv-ósannindavaðlinum.