29.6.2010

Þriðjudagur, 29. 06. 10.

Tvennt hefur verið vegið þyngst í rökum þeirra, sem vilja, að Ísland gangi í ESB: útrýming krónunnar og matarverð stórlækki.

Í gær sagði formaður Íslandsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að Íslendingar væru betur settir með krónu en evru.

Í dag birti Hagstofa Íslands niðurstöðu verðkönnunar á matvælum á Íslandi og í ESB ríkjum vorið 2009. Verðið var 4% hærra hér en að meðaltali innan ESB, en var 61% hærra árið 2006.

Hvaða rök skyldu ESB-aðildarsinnar á Íslandi finna næst?

DV
er ómerkilegra en ella, þegar það skrifar um sum mál. Í gær vakti blaðið máls á því, að ríkisendurskoðun gerði úttekt á framhaldsskólanum Hraðbraut. Var látið að því liggja, að Ólafur H. Johnson, skólameistari og eigandi skólans, væri ekki með hreint mjöl í pokahorninu. Hann segir að svo sé, en samningar sínir við menntamálaráðuneytið séu lausir til endurnýjunar.

Í dag sá ég látið að því liggja á dv.is, að ég komi eitthvað að rekstri Hraðbrautar. Þegar betur er að gáð er á dv.is vitnað í pistla hér á síðu minni frá 2003, þegar ég sem dómsmálráðherra fagnaði því, að Hraðbraut væri að hefja starfsemi. Ég hefði verið því fylgjandi sem menntamálaráðherra, að samið yrði við skólann.

Þegar ég las um upphaflegu fréttina í DV, velti ég fyrir mér, hvort að baki henni byggi óvild í garð einkaskóla á framhaldsskólastigi. Nú ætlaði Katrín Jakobsdóttir í anda vinstri-grænna að ganga að skólanum dauðum og í því skyni hefði verið ákveðið að leka í DV , að eitthvað væri athugavert við fjárreiður skólans. Að nafn mitt skyldi dregið inn í frásögn DV styrkti þessa skoðun mína.

Mér er óskiljanlegt, að fjárfestar kjósi að verja fé sínu til að halda úti dagblaði undir ritstjórn Reynis Traustasonar. Það sýnir aðeins, að enn er 2007-hugsunarháttur við lýði hjá íslenskum peningamönnum.