24.6.2010

Fimmtudagur, 24. 06. 10.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun, föstudag. Honum  lýkur síðan á sunnudag. Fundurinn verður með sérstöku sniði, enda er til hans boðað á milli reglulegra landsfunda. Til fundarins er kallað, vegna þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður. Á fundinum verður einng kjörinn formaður. Enginn hefur gefið kost á sér gegn Bjarna Benediktssyni, formanni. Í dag tilkynnti Lára Óskarsdóttir, Reykjavík, að hún byði sig fram til varaformanns. Allt bendir til, að Ólöf Nordal, alþingismaður, verði kjörin varaformaður. Hún kynnti framboð sitt fyrir nokkrum vikum.

Einkennilegt er að sjá sífellt vitnað í Svein Andra Sveinsson, hrl., um ESB-mál vegna landsfundarins. Til hans er vitnað á vefmiðlum, meðal annars Eyjunni, sem hefur tekið upp ritstjórnarstefnu í anda ESB-aðildar undir forystu Þorfinns Ómarssonar. Sveinn Andri hefur í frammi hótanir um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, njóti ESB-sérsjónarmið hans ekki þess stuðnings á landsfundinum, sem hann væntir.

Sveinn Andri heldur þessu sjónarmiði á loft í því skyni að vekja athygli á sjálfum sér, líklega í von um að gera sig gildandi á landsfundinum. Fráleitt er, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggi Össuri Skarphéðinssyni og félögum lið í ESB-leiðangrinum. Svo illa hefur verið haldið á þeim  málum, að rétt er, að stjórnarflokkarnir beri einir ábygrð á bjölluatinu í Brussel. Vilji Sveinn Andri kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, til að taka þátt í því ati, á hann það við sjálfan sig en ekki þá, sem eftir verða í flokknum.

Hinn holi hljómur í málflutningi Sveins Andra er í ætt við bjölluatið. Ég skrifaði pistil um þann áróður, sem Sveinn Andri og félagar stunda á Evrópuvaktina í morgun. Hann má lesa hér.