22.6.2010

Þriðjudagur, 22. 06. 10.

Það var öskuryk yfir Fljótshlíðinni í morgun, en um tvöleytið kom skúr og þá sló á rykið. Þegar við ókum í bæinn minnkaði það jafnt og þétt. Líklega verður unnt að ganga að þessum ófögnuði vísum í sumar, þegat vindátt feykir öskunni vestur á bóginn.

Furðulegt var að hlýða á Össur Skarphéðinsson skammast út í David Cameron fyrir að skilja samþykkt leiðtogaráðs ESB um viðræður við Ísland eftir orðanna hljóðan. Cameron tengir Icesave-málið að sjálfsögðu aðildarviðræðum við Ísland. Hann veit að Bretar geta beitt neitunarvaldi við gerð samningsrammans við Ísland. Þeir geta krafist þess, að þar verði skilyrði vegna Icesave. Þeir hafa stuðning til þess í niðurstöðu leiðtogaráðsins, eins og hér er rökstutt.

Blekkingariðja Össurar vegna Icesave og ESB er dæmd til að mistakast. Furðulegt er, að enginn embættismaður í utanríkisráðuneytinu skuli leiða Össuri og ríkisstjórninni fyrir sjónir, hvað felst í samþykkt leiðtogaráðsins. Í stað þess að gera það lætur sendiherra Íslands gagnvart ESB og aðalsamningamaður Íslands, eins og Össur hafi rétt fyrir sér við túlkun á niðurstöðu leiðtogaráðsins.

Utanríkisráðuneytið var því miður ekki heldur í stakk búið til að veita þá ráðgjöf í Icesave-málinu, sem dugði til að tryggja og treysta réttarstöðu Íslands.