18.6.2010

Föstudagur, 18. 06. 10.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og á vefsíðuna Evrópuvaktina, þar sem ég ræddi um samþykkt leiðtogaráðs ESB í gær. Þar er Íslendingum stillt upp við vegg. Augljóst er, að ekkert mun miða í aðildarviðræðum, á meðan Icesave-deilan er óleyst. Bretar eða Hollendingar hafa neitunarvald innan ESB um samningsrammann við Ísland, sem framkvæmdastjórn ESB tekur nú til við að semja og kynna fyrir ESB-ríkjunum 27. Hvert þeirra getur gert athugasemd og stöðvað framgang málsins, nema Íslendingar fallist á ákveðin skilyrði. Þar ber Icesave og hvalveiðar hæst.

Furðulegt er að lesa þau ummæli höfð eftir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að fullveldi Íslands styrkist við aðild að ESB. Þá fáum við áhrif, sem við höfum ekki nú. Staðreynd er, að íslensk stjórnvöld hafa ekki nýtt sér rétt sinn til áhrifa samkvæmt EES-samningnum. Raunar hefur utanríkisráðuneytið skirrst við að hrinda tillögum um það efni í framkvæmd.

Hver trúir því, að breyting verði í því efni eftir ESB-aðild? Hvað er að gerast nú innan ESB? Evru-rikin bíða með öndina í hálsinum eftir því, sem Þjóðverjar og Frakkar ákveða. Bretar reyna að verjast því að verða dregnir of langt til ábyrgðar á björgunarsjóðum, sem þeir segjast ekki eiga að ábyrgjast. Svo er utanríkisráðherra á Íslandi, sem lætur eins og hann muni hafa einhver meiri áhrif en hann hefur nú með því að ganga í ESB.

Það lofar síðan ekki góðu um framhaldið, að Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, segir ekki rétt frá skilyrðum ESB og lætur eins og léttilegt sé að sigla fram hjá þeim.