16.6.2010

Miðvikudagur, 16. 06. 10.

Í dag tók ég viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem flutt er á ÍNN sjónvarpsstöðinni í kvöld klukkan 21.30 og síðan á tveggja tíma fresti þar til klukkan 20.00 17. júní, gangi dagskrá stöðvarinnar eins og skipulagt er.

Ég skora á þá, sem sjá ástæðu til að finna að þeirri ákvörðun Hönnu Birnu að taka að sér forsetaembættið að horfa á þáttinn og hlusta á rök hennar. Ég tel, að allt pukrið í kringum myndun meirihluta og skiptingu starfa á milli borgarfulltrúa valdi því, að menn átti sig ekki á því, hvernig málum er háttað. Hitt er síðan annað mál, að þessi skipan í borgarstjórn mun aldrei falla að skoðunum þeirra, sem telja, að þar eigi að ríkja stöðug stórstyrjöld milli minni- og meirihluta. Um þann þátt málsins ræðir Hanna Birna einnig í viðtalinu.

Þá spyr ég hana um þá ákvörðun hennar að gefa ekki kost á sér til varaformennsku í flokknum.

Hafi ég haft efasemdir um, að Hanna Birna væri að gera rétt með því skrefi, sem hún ákvað að stíga, hurfu þær eftir samtal okkar. Styð ég hana heilshugar, sérstaklega vegna þess, að hún á engan þátt í málefnaskrá Besta flokksins og Samfylkingarinnar, sem er dýr í framkvæmd og illa unnin - þar er á átta blaðsíðum til dæmis ekki vikið einu orði að íþróttum.

Að halda því fram, að Hanna Birna sé að sækjast eftir forsetastólnum vegna bíls og bílstjóra er fráleitt, því að ekki verður um slík fríðindi að ræða.