1.6.2010

Þriðjudagur, 01. 06. 10.

Í tilefni af því, að Hjördís Hákonardóttir tilkynnti afsögn sína sem hæstaréttardómari, heldur Illugi Jökulsson áfram að skrifa ósannindi og spinna samsæriskenningar um embættaveitingar  á vefsíðu sína.  Ein kenning hans er í stuttu máli sú, að ég hafi skipað Ólaf Börk Þorvaldsson dómara í hæstarétt árið 2003, af því að ég hafi ekki skipað Ólaf Oddsson rektor Menntaskólans í Reykjavík árið 1995. Ólafur Oddsson sé hálfbróðir Davíðs, sem hafi reiðst vegna ákvörðunar minnar, og þess vegna hafi ég skipað Ólaf Börk, frænda Davíðs, í hæstarétt.

Þegar ég varð menntamálaráðherra vorið 1995 var embætti rektors Menntaskólans í Reykjavík laust. Ég hafði varla komið mér fyrir í ráðuneytinu, þegar bréf barst þangað frá skólanefnd MR,  sem mælti einróma með Ragnheiði Torfadóttur í rektorsembættið. Skipaði ég hana. Að þetta setti einhvern skugga á samstarf okkar Davíðs er hugarburður Illuga.

Við Ólafur Oddsson unnum náið saman að málefnum stúdenta á háskólaárum okkar, þegar við sátum saman í stúdentaráði. Ég vissi vel um mikla hæfileika hans en vildi ekki ganga gegn einróma niðurstöðu skólanefndar.

Í áranna rás hefur oft verið deilt um skipan manna í hæstarétt. Ákvörðun mín um að skipa Ólaf Börk hæstaréttardómara byggðist á skýrum málefnalegum rökum. Sjö ára reynsla af dómarastörfum Ólafs Barkar er besta sönnunin fyrir því, að hann er starfinu vaxinn og skilar því með sóma.

Illugi Jökulsson fullyrðir, að ég hafi verið „dæmdur fyrir brot á jafnréttislögum“ fyrir að ganga fram hjá Hjördísi Hákonardóttur, þegar ég skipaði Ólaf Börk. Þetta er ekki rétt hjá Illuga. Kærunefnd jafnréttismála gaf  álit, þar sem fram kom, að ég hefði farið á svig við jafnréttislögin. Ég andmælti þessu áliti nefndarinnar og taldi jafnréttislögin „barn síns tíma“, styddist álitið við þau, sem reyndist rétt, því að lögunum hefur verið gjörbreytt. Á hinn bóginn vann ég að því í samræmi við álit kærunefndarinnar að ná samkomulagi um viðundandi málalyktir við Hjördísi og gekk það eftir.

Í því felst dæmalaus langrækni af hálfu Illuga að tönnlast á þessum gömlu málum. Að Illugi kýs auk þess að fara rangt með staðreyndir, staðfestir enn óvildina, sem að baki býr. Illugi á heiður að verja sem sagnfræðingur og álitsgjafi. Fjalli hann með sama hugarfari um önnur mál, vara ég lesendur hans við að taka mark á nokkru því, sem frá honum kemur.

Hér á síðunni má með aðstoð réttra leitarorða lesa mikið efni, sem tengist skipun Ólafs Barkar í hæstarétt og máli Hjördísar Hákonardóttur.