28.4.2010

Miðvikudagur, 28. 04. 10.

Séra Bernharður Guðmundsson jarðsöng Þorvald Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseta alþingis, í Dómkirkjunni í dag. Ég kom á þing sama ár og Þorvaldur Garðar hvarf þaðan, svo að ég starfaði aldrei með honum á þingi. Hann studdi mig hins vegar af alúð til þingmennskunnar og lagði mér lið í prófkjörum. Ég leitaði í smiðju til hans, þegar ég settist á ráðgjafarþing Evrópuráðsins í Strassborg, en þar hafði Þorvaldur setið í 25 ár, eða samtals þrjú ár af ævi sinni, þegar hann taldi þann tíma, sem hann dvaldist í Strassborg saman. Ég kveð með Þorvald Garðar þökk og virðingu.

Ég minni að nýju á nýju vefsíðuna www.evropuvaktin.is, sem er í umsjá okkar Styrmis Gunnarssonar. Þar er finna fréttir af þróun mála í Evrópu og um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Salvör Nordal, sem sat í siðfræðihópi rannsóknarnefndarinnar, flutti erindi í Rótary-klúbbnum í dag og fjallaði um virðingu eða virðingarleysi fyrir lögum og reglu. Hugleiðingar sýndu, að hér virðast menn ekki vilja lúta eðlilegum aga og fara sínu fram eins og þeim hentar hverju sinni, síðan sé brugðist með því að benda á reglur eða skort á reglum. Hafi einhverjar haldið, að þetta breytist af sjálfu sér eftir útgáfu hrunskýrslunnar, er ég viss um, að hinir sömu verða fyrir vonbrigðum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur látið eins og nú séu breyttir tímar og hún hafi skipað nefndir til að formbinda nýja starfshætti. Þegar hún er hins vegar spurð um háar styrkveitingar til Steinunnar Valdísar Óskarsdóttir, segir Jóhanna, að það hafi ekki verið neinar reglur auk þess sem menn í öðrum flokkum hafi einnig fengið háa styrki! Bendir þetta til nýs hugarfars? Alls ekki.  Vinstri-grænir veita síðan Steinunni Valdís stuðning til formennsku í allsherjarnefnd, nefndinni, sem fjallar meðal annars um málefni hins sérstaka saksóknara.