12.4.2010

Mánudagur, 12. 04. 10.

Fylgdist með blaðamannafundi rannsóknarnefndar alþingis og sérnefndar um siðfræðileg álitamál í sjónvarpinu í morgun. Nefndarmenn hafa unnið mikið og þarft verk.  Kynningin var vel af hendi leyst. Um einstök atriði í skýrslunni ætla ég ekkert að segja, fyrr en ég hef kynnt mér þau betur.

Atvikalýsingin staðfestir þá skoðun, að innanmein bankanna hafi orðið þeim að falli. Erlend áhrif séu ekki eins mikil og ætla hefði mátt. Eftirlits- og stjórnkerfið hafi ekki reynst vandanum vaxið.

Nokkrar umræður hafa orðið um aðferð við töku ákvarðana á vettvangi ríkisstjórna. Í samsteypustjórnum ræða formenn samstarfsflokka um mikilvæg mál sín á milli og ákveða hinar pólitísku línur. Þeir hafa pólitíska forystu og ábyrgð gagnvart ráðherrum og þingflokkum. Undir þeim er komið, frá hvaða pólitísku málum er skýrt á fundum ríkisstjórnar eða þingflokka. Þessum starfsháttum verður ekki breytt með lögum. Framkvæmdin verður að lokum alltaf á höndum þeirra, sem eru valdir til forystu í stjórnmálaflokkum.

Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki en ekki aðrir ráðherrar, jafnvel þótt mál séu kynnt fyrir þeim á fundi ríkisstjórnarinnar. Hið einkennilega í því, sem fram kemur um stjórnarhættina í þessari skýrslu , er, að Björgvini G. Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, skuli hafa verið haldið utan þess þrönga hóps ráðherra, sem fjallaði sérstaklega um málefni bankanna. Hann er hins vegar ábyrgur fyrir vanrækslu í málaflokknum, eins og segir í skýrslu nefndarinnar.

Hér á þessum síðum hef ég oft sagt í áranna rás, að skýrar stjórnsýslureglur og virðing fyrir þeim séu ekki íþyngjandi fyrir þá, sem eftir þeim eiga að starfa, þvert á móti séu reglurnar tæki til að komast að málefnalegri og gegnsærri niðurstöðu. Í slíkum reglum felst meðal annars skylda stjórnvalda til að bregðast skipulega við upplýsingum, sem þeim eru kynntar.

Á blaðamannafundinum var rannsóknarnefndin oftar en einu sinni spurð um refsiþátt og vísaði hún þá lögum samkvæmt á ákæruvaldið. Greinilegt var, að siðferðilega og pólitískt töldu blaðamenn, að rannsóknarnefndin hefði átt að gera meira í þessu efni en hún gerði.