22.3.2010

Mánudagur, 22. 03. 10.

1. júlí 2003 sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu, þar sem sagði:

„Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um að láta fara fram hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og meðfylgjandi jökulhlaupa í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli.

Ástæða þessarar samþykktar er að eins og kunnugt er hefur borið talsvert á skjálftavirkni í vestanverðum Mýrdalsjökli og talið er að komið hafi endurtekin kvikuinnskot undir Eyjafjallajökul á síðustu árum. Með þessu hefur verið fylgst af hálfu almannavarnayfirvalda og viðbragðsáætlanir hafa verið gerðar, en þær fyrst og fremst miðast við hugsanleg jökulhlaup til suðurs frá Mýrdalsjökli. Nýlega hafa komið fram við jarðlagakönnun upplýsingar um að stór hlaup hafi komið í Markarfljót vegna eldgosa í vestanverðum Mýrdalsjökli, sem orðið hafa á 1000 – 2000 ára fresti frá lokum síðustu ísaldar.“

Að baki þessari samþykkt bjó „Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa til norðurs, vesturs og suðurs frá Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls“, sem lesa má hér og samin var af Ágústi Gunnari Gylfasyni, Jónasi Elíassyni, Kjartani Þorkelssyni og Magnúsi Tuma Guðmundssyni fyrir Almannavarnaráð.

Eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar var hafist handa um gerð hættumatsins og áhættugreiningarinnar í samræmi við þessa áætlun. Næsta skref var síðan gerð viðbragðsáætlana og síðan æfingar samkvæmt þeim, mest þeirra var Bergrisinn 26. mars 2006.

Þótt gosið á Fimmvörðuhálsi hafi ekki sést á skjálftamælum, þegar það varð, kom það engum þeirra, sem tekið hafa þátt í hinu mikla rannsókna- og almannavarnastarfi síðan 2003 á óvart.