21.3.2010

Sunnudagur, 21. 03. 10.

Í morgunfréttum RÚV heyrði ég, að eldgos hefði orðið á Fimmvörðuhálsi fyrir austan Eyjafjallajökul skömmu fyrir miðnætti og 500 til 600 íbúar í nágrenninu hefðu verið fluttir á brott af ótta við flóð. Reyndist lán í óláni, að gosið varð ekki undir jökli og þess vegna flæddi ekki. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, segir gosið hvorki öflugt né mikið. Páll Einarsson, jarðeðlilsfræðingur, segir gos á þessum slóðum geta verið kveikju að Kötlugosi.

Ég talaði við nágranna mína í Fljótshlíðinni í síma. Þeir höfðu verið ræstir út og farið á Hvolsvöll til að skrá sig en snúið fljótlega heim, enda yrði nokkur aðdragandi, ef flæddi á þeirra slóðum. Þeir höfðu ekki orðið varir fyrir öskufall.

Almannavarnakerfið virkar vel. Skipulagsbreytingar á því undanfarin ár skila árangri undir forystu vel þjálfaðra og agaðra stjórnenda. Sumarið 2003 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að farið yrði að óskum almannavarndanefndar undir forystu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli, um áhættumat vegna hugsanlegs eldgoss í Eyjafjallajökli og/eða vestanverðum Mýrdalsjökli. Í framhaldi af matinu var síðan samþykkt að gera viðbragðsáætlanir og hafa þær verið æfðar. Virkaði kerfið allt snurðulaust sl. nótt. Þá reyndist SIF, flugvél Landhelgisgæslu Íslands, einnig einstaklega vel, en tæki hennar til hvers kyns mælinga og myndatöku úr lofti eru hin fullkomnustu.

Hér á bjorn.is má sjá með því að slá inn leitarorðið almannavarnir, hve mikið og oft ég hef rætt nauðsyn þess að standa vel að þessum málaflokki. Traustir innviðir á þessu sviði skipta sköpum, þegar mest á reynir. Við hættuástand er eðlilegt að ganga lengra en skemur við framkvæmd varúðarráðstafana. Hefði margt farið á annn veg, ef sú varúðarhugsun hefði ráðið för hjá þeim, sem fóru með stjórn í banka- og fjármálaheiminum.

Ef farið er inn á 26. mars 2006 hér á síðunni má lesa um reynslu mína af því að taka þátt í rýmingaræfingu í Fljótshlíðinni.