28.2.2010

Sunnudagur, 28. 02. 10.

Í nótt fékk ég góða frétt af hörmungasvæði í sms. Hún birtist á þennan veg á vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands klukkan 02.10:

„28. febrúar 2010 kl. 02:10

Þær gleðifregnir voru að berast rétt í þessu að tveir íslenskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í Chile eru heilir á húfi og við góða heilsu.

Þeim tókst að komast í örstutt símasamband og láta vita af sér. Þeir eru nú staddir í Concepción og verður nú unnið að því að koma þeim heim til Íslands eins fljótt og verða má.

Jafnframt hafa borist óstaðfestar fregnir af því að varðskipið Þór hafi sýnt krafta sína og styrk og staðið af sér jarðskjálftann.

Þetta eru mikil gleðitíðindi og Landhelgisgæslan hlakkar til að veita þeim köppum hlýjar móttökur við heimkomuna.“

Laugardaginn 27. febrúar varð jarðskjálfti, 8,8 á Richter í Chile um 90 km frá ASMAR-skipasmíðastöðinni í Talcahuano, þar sem varðskipið Þór hefur verið í smíðum. Ég fór í stöðina fyrir tæpum tveimur árum, þegar lagður var kjölur að varðskipinu, sem hleypt var af stokkunum fyrir ári og gefið nafnið Þór.
 
Vegna þessara tengsla hafði ég meiri áhuga en ella á því, sem gerðist í þessum hrikalega skjálfta. Sjö menn voru þarna á vegum gæslunnar, fimm Danir og tveir Íslendingar. Allir eru heilir á húfi. Fréttir mínar herma, að kraftaverki sé líkast, að Þór sé á floti, þótt skipasmíðastöðin sé í rústum. Þór var í þurrkví, ef ég veit rétt.  Togari í smíðum fyrir Ísfélagið er á floti. Hafrannsóknaskip í stöðinni er líklega sokkið.