24.2.2010

Miðvikudagur, 24. 02. 10.

Í dag ræddi ég við Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN, sem frumsýndur verður klukkan 21.30 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti næsta sólarhring og aftur um næstu helgi. Ég spurði hana um, hvernig væri að vera ópólitískur ráðherra, um undirbúning vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, Schengen, nýjar reglur um skipan dómara og fleira.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) gaf í dag grænt ljós fyrir viðræður við Ísland um aðild að ESB. Í tilkynningu um málið á vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar segir:

The EU should start formal talks with Iceland on its application to join the bloc, says a commission report on the country's suitability for membership.

But the report also says the North Atlantic island nation of 320 000 will need to make ‘serious efforts' to bring its laws in line with EU legislation in areas including fishing, agriculture and financial services.

Eða:

ESB ætti að hefja formlegar viðræður við Íslands um umsókn þess um að ganga í blokkina, segir í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um hæfni landsins til aðildar.

En í skýrslunni segir einnig, að 320.000 manna eyþjóðin í Norður-Atlantshafi þurfi að gera „alvarlegt átak“ til breyta lögum sínum til samræmis við ESB-löggjöfina á ýmsum sviðum, þ. á. m. varðandi sjávarútveg, landbúnað og fjármálaþjónustu.

Ég vek athygli á því, að hvergi er þarna minnst á samningaviðræður við Ísland heldur er talað um viðræður um umsókn Íslands og brýna nauðsyn þess, að gerðar séu breytingar á íslenskum lögum um sjávarútveg og landbúnað. Kemur þetta heim og saman við þá skoðun, að utanríkisráðuneyti Íslands fari með vísvitandi blekkingar, þegar gefið er til kynna, að efnislega sé unnt að semja um eitthvað við ESB. Málið snýst ekki um samninga heldur aðlögun íslenskrar löggjafar á öllum sviðum að ESB-löggjöfinni.

Enn hefur Clint Eastwood tekist að gera einstæða mynd, Invictus, sem sýnd er í Kringlubíói. Ég mæli eindregið með henni.