10.2.2010

Miðvikudagur, 10. 02. 10.

 

 

 

Það rigndi minna í dag í Róm en í gær og ekkert undir kvöld. Við fórum í góða gönguferð yfir Ponte Sisto og að Pantheon með viðkomu á Piazza Navone og Piazza Campo di Fiori, þar sem daglega er blóma-, ávaxta og matvörumarkaður.

Kvartettinn æfði síðdegis í Palazzo della Cancelleria, sem er fyrsta stóra höll endurreisnartímans í Róm, reist 1483 til 1511. Eins og nafnið „cancelleria“ gefur til kynna, var höllin reist fyrir kanselí, stjórnarskrifstofur, páfa, þegar stjórnardeildir páfastóll voru á þessum stað í hjarta Rómar.

Tónleikarnir voru í Aula Magna, það er mikla salnum, í kanselíhöllinni. Salurinn ber nafn með rentu, lofthæð er um 20 metrar og hann er skreyttur listaverkum eins og aðrir salir hallarinnar. Í einum hluta hennar er sýning til heiðurs Leonardo da Vinci og þeim tækjum, sem meistarinn hannaði og smíðaði.

Þegar við komum til kanselíhallarinnar um klukkan 20.00 voru þar fjölmennir hópar Ítala í skoðunarferðum undir leiðsögn. Aula Magna var þéttsetin, þegar tónleikarnir hófust rúmlega 21.00. Félagið Progretto Lettonia, http://www.progrettolettonia.it/, skipulagði tónleikana, en það starfar undir verndarvæng páfastóls.

Kvartettinn lék tvö verk: Wolfgang Amadeus Mozart: Kvartett í D-moll. K421 og Ludwig van Beethoven: Kvartett í C-moll op. 18 nr. 4.

Góður rómur var gerður að flutningi kvartettsins og hann lék Sofðu unga ástin mín sem aukalag.

Enn var þurrt úti, þegar tónleikunum lauk um 22.30 en kalt í lofti, líklega um eða undir frostmarki.

Þegar við gengum um Piazza Campo di Fiori á heimleiðinni undir miðnætti var mikið mannlíf þar enn, því að veitingastaðir umhverfis torgið voru þétt settnir og margir sátu í tjöldum utan dyra með gastæki sér til hita. Þau eru mörg þannig úr garði gerð, að eldsúla spýtist upp úr stauti. Súlurnar líkjast flöktandi kyndlum og setja sterkan svip á næturlífið á torginu.