31.1.2010

Sunnudagur, 31. 01. 10.

Í Víkverja Morgunblaðsins 30. janúar er endurtekin rangfærslan um, að ég hafi skipað „tvo annálaða heiðursmenn til að hefja rannsókn á aðdraganda hrunsins en þeir væru báðir bullandi vanhæfir.“ Segir Víkverji, að Morgunblaðið hafi fyrst fjölmiðla kveikt á vanhæfinu. Segir Víkverji, að sonur annars heiðursmannanna sé grunaður um lögbrot og lýkur síðan efnisgrein sinni um þetta á þessum orðum: „Hefði ekki verið bent á vanhæfið væri hann (sonurinn) ef til vill ekki heldur ekki grunaður um neitt í dag.“

Sá, sem skrifar Víkverja þennan dag, hefði átt að kynna sér staðreyndir, áður en hann setti ofangreind orð á blað. Þau eru til marks um óvandaða blaðamennsku um mannorð þeirra, sem í hlut eiga. Ég skipaði ekki neina til að rannsaka aðdraganda hrunsins. Ég samþykkti hins vegar tillögu ríkissaksóknara um, að á vegum embættis hans yrði hugað að heildarmati á því, sem rannsaka bæri. Mér datt aldrei í hug, að ríkissaksóknari ætti að rannsaka bankahrunið, enda flutti ég nokkrum dögum eftir hrunið tillögu um að koma á fót embætti sérstaks saksóknara. Lögfesting tillögu minnar tafðist, vegna þess að samfylkingaráðherrar þvældust fyrir henni á fyrstu stigum en lögðu henni lið, eftir að ákveðið var að koma á fót rannsóknarnefnd á vegum alþingis.

Egill Helgason og Jón F. Thoroddsen hafa haldið fram ósannindum í sama dúr og gert er í Víkverja. Jón hefur ekki haft þrek til að leiðrétta það, sem hann segir um málið í óvandaðri bók sinni um hrunið. Hann hefur ekki einu sinni svarað bréfum mínum um málið, þar sem ég óska eftir opinberri leiðréttingu. Ég velti fyrir mér, hvort hið sama gildi um Víkverja og Jón, að hann leiðrétti ekki rangfærslu sína. Hérmeð skora ég á Víkverja og ritstjórn Morgunblaðsins að birta það, sem satt er í þessu máli og biðjast afsökunar á því að bera menn röngum sökum.