28.1.2010

Fimmtudagur 28. 01. 10.

Fór í kvöld á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hlýddi á Sögusinfóníu Jóns Leifs. Það segir sýna sögu um þróun tónlistar síðan Jón samdi þetta verk í Berlín 1941 og 1942, að nú hljómar hún eins og hver önnur sinfónía en þótti þá framandleg. Samkvæmt ævisögu Jóns Leifs eftir Árna Heimi Ingólfsson vildi Jón andmæla túlkun Richards Wagners á norrænum menningararfi með sinfóníunni. Wagner nálgaðist viðfangsefnið alltof mildum höndum.

Á tónleikunum voru frumflutt þrjú ný íslensk tónverk eftir Hlyn Aðils Vilmarsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Hróðmar I. Sigurbjörnsson. Þau eru öll samin undir þeim formerkjum, að tónskáldin hafi Sögusinfóníuna í huga, enda báru tónleikarnir titilinn: Sögusinfónían + 3. Segja má, að dæmið hafi gengið upp með glæsibrag.

Eftir tónleikana sagði Hjálmar H. Ragnarsson, að íslenskir rithöfundar ættu Halldór Laxness sem sitt viðmið, myndlistarmenn Kjarval og tónlistarmenn Jón Leifs.