27.1.2010

Miðvikudagur, 27.01.10.

Tók í dag viðtal við Lárus L. Blöndal, hrl.,í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN . Við ræddum um Icesave en Lárus hefur ritað um málið frá lögfræðilegum sjónarhóli ásamt Stefáni Má Stefánssyni. Þeir félagar hafa skrifað greinarnar í Morgunblaðið en í dag birtist grein eftir þá í norska blaðinu Aftenposten. Þeir hafa hug á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fleiri blöðum erlendis. Lárus sagði þá ekki hafa fengið neinn stuðning ríkisvaldsins við þýðingu eða annað vegna þessarar kynningar á málstað Íslendinga á Norðurlöndunum eða annars staðar.

Í þessari viku hafa lögfræðilegir ráðunautar bresku ríkisstjórnarinnar verið kallaðir fyrir rannsóknarnefnd í London, sem kannar aðdraganda þess, að Tony Blair tók ákvörðun um að ráðast inn í Írak í mars 2003. Goldsmith lávarður, sem sat í ríkisstjórn Blairs og var jafnframt æðsti lögfræðilegur ráðunautur hennar, svaraði spurningum nefndarmanna í beinni útsendingu í dag. Hann sagðist hafa verið þá og vera enn sannfærður um, að innrásin hafi verið lögleg.  Lögfræðiráðgjafar breska utanríkisráðuneytisins, sem sátu fyrir svörum í nefndinni í gær, töldu innrásina ólöglega. Hún hefði ekki notið stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

BBC hefur í tilefni af þessum ágreiningi leitað til lagaprófessora. Þeir leggja áherslu á, að bresk stjórnvöld standi ætíð við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum. Væri einhver veigur í íslenskum stjórnvöldum eða málsvörum Íslands í Bretlandi, ættu þeir að nýta sér áhuga breskra fjölmiðla á lagalegum skuldbindingum á alþjóðavettvangi til að minna á Evrópurétt og hvernig gallar á honum eru notaðir til að setja Íslendingum afarkosti. Það sýni ekki mikla virðingu bresku ríkisstjórnarinnar á því að ljúka milliríkjadeilum á grundvelli alþjóðalaga.