25.1.2010

Mánudagur, 25. 01. 10.

Sótti stjórnarfund í Snorrastofu í Reykholti í dag. Kjartan Ragnarsson fræddi okkur um hugmynd sína varðandi baðhús og hótel við Deildartunguhver. Stórhuga áform, sem vonandi tekst að framkvæma. Snorrastofa fagnar 10 ára afmæli sínu í ár. Starfsemi hennar stendur með blóma undir forystu Bergs Þorgeirssonar. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þróun Reykholts síðustu 15 ár, frá því að ákveði var að hverfa frá skólastarfi þar.

Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu undir formennsku Páls Hreinssonar tilkynnti í dag, að nýjar upplýsingar yrðu til að fresta útgáfu á skýrslu nefndarinnar um að minnsta kosti fjórar vikur. Tryggvi Gunnarsson, einn þriggja nefndarmanna, lýsti á dramatískan hátt tilfinningum sínum og reiði vegna upplýsinga, sem hafa farið um hendur nefndarmanna. Taldi hann, að gefa ætti þjóðinni frí í nokkra daga til að kynna sér efni skýrslunnar, sem yrði tæpar 2.000 síður að lengd.

Takist nefndinni að birta skýrslu sína undir lok febrúar eða í byrjun mars, þarf þjóðin ekki aðeins að taka sér frí frá daglegum störfum til að kynna sér efni hennar, heldur verður einnig gerð sú krafa til fólks á kosningaaldri, að það búi sig undir að greiða atkvæði um Icesave hinn 6. mars.

Það yrði svo sem í samræmi við annað umrót í þjóðlífinu, að þetta tvennt félli saman.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir, að kvikmyndagerðarmenn verði að sætta sig við mikinn niðurskurð á fjárveitingum til Kvikmyndasjóðs, af því að hann hafi fengið svo mikla peninga á undanförnum árum. Vinstri-græn eru iðin við að skella skuldinni á aðra. Þetta er þó sérkennilegasta aðferðin til þess.