23.1.2010

Laugardagur, 23. 01. 10.

Hanna Birna Kristjándóttir fékk afgerandi stuðning sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins í Reykjavík í dag. 7.200 greiddu atkvæði og er það góð þátttaka  á hvaða kvarða sem er en ekki síst, þegar í huga er haft, að ekki var nein keppni um fyrsta sætið. Þeir fimm, sem kepptu um annað sætið, raða sér í næstu fimm sætin á eftir Hönnu Birnu. Í 10 efstu sætunum eru 6 konur og tveir, sem ekki hafa komið að borgarmálum áður, Geir Sveinsson og Hildur Sverrisdóttir.

Þáttaskil verða í borgarstjórnarflokknum eftir þetta prófkjör, þegar til þess er litið, að nú hverfur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson úr honum. Hann hefur setið í borgarstjórn síðan 1982 og látið verulega að sér kveða. Hann tók við af mér sem oddviti borgarstjórnarflokksins, þegar ég varð ráðherra að nýju 2003. Vilhjálmur Þ. var borgarstjóri í 16 mánuði eftir kosningarnar 2006 fram á haust 2007.

Hanna Birna kom inn í borgarstjórnarflokkinn á sama tíma og ég árið 2002. Hið sama er að segja um Gísla Martein Baldursson og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Gísli Marteinn og Vilhjálmur Þ. börðust um leiðtogasætið í prófkjöri fyrir kosningarnar 2006 með sigri Vilhjálms Þ.

Hanna Birna er fjórði borgarstjórinn á þessu kjörtímabili og kemur frá því, sem hinn öruggi sigurvegari innan Sjálfstæðisflokksins og borgarstjórnar í heild, þar sem henni hefur tekist að sameina borgarfulltrúa til góðra verka á farsælan hátt. Ég óska henni, öðrum frambjóðendum og sjálfstæðismönnum öllum til hamingju með niðurstöðu prófkjörsins.

Í dag er einnig ástæða til að óska handboltaliðinu til hamingju með sigurinn yfir Dönum á Evrópumótinu í Austurríki.