20.1.2010

Miðvikudagur, 20. 01. 10.

Ég heyrði ekki betur en Steingrímur J. teldi sérstakan vanda steðja að þjóðinni vegna trúnaðarbrests út á við, þegar hann ræddi við Ingva Hrafn Jónsson á ÍNN, 19. janúar. Mátti skilja á Steingrími J., að þennan brest mætti rekja til einhverra annarra en þeirra, sem koma fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við, það er ríkisstjórnarinnar. Svo er auðvitað ekki. Þegar lagt er mat á stjórnarhætti lands, er litið til þess, hvernig ríkisstjórn þess heldur á málum. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hefur mistekist að efla traust í garð lands og þjóðar.

Atvinnustarfsemi innan lands lamast hægt og sígandi, fjárfestingar stefna í að verða hlutfallslega minni en nokkru sinni frá stríðslokum. Ríkisstjórnin fylgir stefnu í Evrópumálum, sem mun eyðileggja íslenskan landbúnað og fela öðrum ákvörðunarvald um sjávarafla í íslenskri lögsögu.

Útgerðarmenn í Vestmannaeyjum hafa stefnt stórum hluta flota síns í land vegna baráttufundar annað kvöld gegn fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætlunin er að mótmæla ákvörðunum stjórnvalda um fyrningarleið í sjávarútvegi, útflutningsálagi á ísfisk og afnámi sjómannaáfsláttar.

Ríkisstjórnin leggur stein í götu orkunýtingar og amast við stóriðjufyrirtækjum. Skattar eru hækkaðir á sama tíma og skatttekjugrunnurinn er minnkaður.