14.1.2010

Fimmtudagur, 14. 01. 10.

Í hádeginu efndi innanríkisnefnd Sjálfstæðisflokksins undir formennsku Hildar Dungal til fjölmenns fundar í Valhöll um stjórnarskrána, þar sem Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hafði framsögu en Sturla Böðvarsson stýrði fundi og hvatti til þess, að sjálfstæðismenn tækju enn til við að ræða og móta nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Klukkan 17.30 fór ég í þéttsetinn ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins, þar sem Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, flutti erindi um skipulagsmál í Reykjavík með vísan til íbúaþróunar, samgöngumála og umhverfismála. Bílaeign er meiri en annars staðar á Norðurlöndum, almenningssamgöngur verr nýttar og mengun meiri. Var gerður góður rómur að máli hans.

Hörmungar vegna jarðskjálftans, sem varð á Haiti í fyrradag, eru gífurlegar. Rústabjörgunarmenn Landsbjargar, sem voru fyrstir erlendra björgunarliða til Port au Prince, höfuðborgarinnar, segja um 60% húsa hrunin í borginni. Af fréttum má ráða, að samhæfing milli íslenskra björgunarmanna hér heima og á Haiti sé mikil með aðstoð gervihnattamynda, gps-tækni og gervihnattasíma. Þetta sannar enn, hve mikils virði er að tryggja sem besta fjarskipta- og feriltækni til að tryggja öryggi björgunarmanna og auðvelda þeim störf, eins og frekast er kostur miðað við aðstæður á hverjum stað.