11.1.2010

Mánudagur, 11. 01. 10.

 

Í fréttum RÚV að kvöldi 10. janúar sagði, að skattasérfræðingar væru nú önnum kafnir við að upplýsa um þær breytingar sem hefðu orðið á skattkerfinu á skömmum tíma. Þeir segðu marga leita leiða til að koma sér undan aukinni skattbyrði með lögmætum hætti, og því óvíst hvort skattahækkanirnar kæmu til með að skila sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs þegar upp væri staðið.

Sama dag var sagt frá því í fréttum, að auglýsingar á dýrum bílum eða armbandsúrum væru til marks um, að menn vildu koma peningum í annars konar verðmæti, til dæmis til að flytja þá þannig úr landi á tímum gjaldeyrishafta eða í stað þess að geyma þá á neikvæðum vöxtum í bankastofnunum.

Að kvöldi 11. janúar sagði RÚV frá því, að kunnur athafnamaður hefði bæst í hóp fjölmargra, sem hefðu flutt lögheimili sitt úr landi. Líklegt er, að fleiri, sem á því hafa tök og efni, bætist í hóp Íslendinga með lögheimili erlendis. Ástæðuna fyrir ákvörðunum efnafólks, sem nú flytur, má rekja beint til nýrra skattalaga ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.

Að kenna bankahruninu um þessa þróun í skattamálum er fráleitt. Hún hefði orðið án þess, hvenær sem Steingrími J. og Indriða H. hefði verið hleypt inn í fjármálaráðuneytið. Þeir eru þar einfaldlega að framkvæma skattastefnu vinstri-grænna. Hún bætir gráu ofan á svart í efnahagslífinu og skapar fleiri vandamál en hún leysir.

Á sama tíma og Jóhanna og Steingrímur J. herða þannig skattatökin á landsmönnum, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir, að skatttekjur aukist, vilja þau ekki ljá máls á því að reyna að minnka Icesave-skuldabyrðina. Skatttekjur eiga að standa undir henni með öllu öðru. Ógæfulegri stjórnarherrum hefur þjóðin sjaldan kynnst - sem betur fer.