8.1.2010

Föstudagur, 08. 01. 10.

Ég ritaði í dag pistil á amx.is til að vekja athygli á þeirri staðreynd, að samningamenn Íslands í Icesave-deilunni hafa haft að engu allar ábendingar um, að lögmæti krafna Breta og Hollendinga sýnist á veikum grunni, svo að ekki sé meira sagt. Þó taka íslenskir embættismenn undir með starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi, þegar kemur að að lögfræðilega þættinum, því að þess hefur aldrei orðið vart, að utanríkisráðuneyti Íslands láti í ljós nokkrar efasemdir um lögmætið.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og varaþingmaður Samfylkingarinnar, var enn á ný í sjónvarpsfréttum með þann boðskap, að samningsstaða Íslands væri önnur og verri en í kalda stríðinu. Þessar kenningar byggjast á því, að málstaður okkar í þorskastríðunum hafi verið svo slæmur, að hann hefði ekki náð fram, nema vegna þess að landið var hernaðarlega mikilvægt og við vorum í varnarsamstarfi við Bandaríkjamenn og innan NATO.

Þetta er einkennileg rulla og hvergi heyri ég þessi sjónarmið nema innan úr Háskóla Íslands. Hvergi í öllum erlendum fréttum og greinum um Icesave, sem ég hef lesið undanfarna sólarhringa, sé ég byggt á rökum af þessu tagi í umræðum um stöðu Íslands, enda skiptir þetta engu máli um lausn Icesave-deilunnar. Þar ráða lagarök að lokum úrslitum eins og í öllum þrætum siðmenntaðra þjóða og þó sérstaklega innan Evrópusambandsins. Æ betur er og að koma í ljós, að hvorki ESB né Bretar eða Hollendingar vilja hampa lagarökunum, af því að þau eru þeim í óhag. Þeim mun einkennilegra er, að íslenska utanríkisráðuneytið heldur þessum rökum ekki fram til að styrkja málstað Íslands.

Þegar síðasta þorskastríðið var háð, 200 mílna deilan 1975 til 1976, var því haldið fram af andstæðingum Íslendinga, að þeir væru að brjóta alþjóðalög. Hafréttarsáttmáli SÞ var ekki kominn til sögunnar, en allir sáu, hvert stefndi þar um stærð lögsögu. Hægt og sígandi fjaraði undan lögmæti krafna Breta, þar til þeir áttuðu sig á, að best væri að semja um niðurstöðu málsins. Hið sama er að gerast í Icesave-málinu. Hægt og sígandi eru efasemdir um lögmæti krafna Breta og Hollendinga að styrkjast. Á hinn bóginn skortir alla markvissa eftirfylgni af hálfu íslenskra stjórnvalda nú.

Sú kenning er fráleit, að efni sjónarmiða Íslendinga í þorskastríðunum hafi ekki skipt máli. Að sjálfsögðu gerðu þau það, eins og efni sjónarmiða Íslendinga skipta núna máli í Icesave-deilunni.